154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:13]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa umræðu. Ég kalla eftir henni og því meira sem við ræðum þetta, því betra. Þá eru alltaf meiri líkur á því að staðreyndirnar komi fram. Ég ætla að byrja á því, virðulegur forseti, vegna þess að ég held að fyrir marga geti reynst ansi ruglingslegt þegar vaðið er úr einu í annað, að tala um hver markmið okkar eru og skuldbindingar og eftir hverju við erum að vinna. Við erum að vinna eftir þremur kerfum. Af því að hv. þingmaður, eins og aðrir, er mjög mikið að leggja upp úr því að þetta snúist ekki um græna orku, þá skulum við fyrst fara yfir staðreyndirnar.

Í fyrsta lagi er það ETS. Þar erum við í samstarfi við EES-ríkin. Það er byggt á svipuðu fyrirkomulagi eins og aflamarkskerfið okkar. Fyrirtæki fá ákveðinn losunarkvóta. Ef þau ætla að losa meira þá þurfa þau að kaupa hann innan Evrópska efnahagssvæðisins og ef þau losa minna, sem er náttúrulega hvatinn, út af tækninýjungum eða fara yfir í grænt eldsneyti þá nýtist það þeim. Þarna er grunnurinn, 1,9 milljónir tonna, græn orka. Það þarf græna orku. Það þarf svo sannarlega orkunýtni líka og tækni, en þetta snýst alltaf um græna orku því að þetta eru flug og siglingar. Stóriðjan er nú þegar á grænni orku en millilandaflugið og millilandasiglingar eru það ekki.

Síðan er það samfélagslosun, virðulegur forseti. Hún er 2,8 milljónir tonna. Þar er langstærsti hlutinn vegna vegasamgangna, 33%. Hvað þurfum við að gera til að fara úr jarðefnaeldsneytinu þar? Við þurfum græna orku.

Svo er það sjávarútvegurinn, sem er 17%. Þar þurfum við svo sannarlega græna orku vegna þess að við ætlum ekki að vera á jarðefnaeldsneyti þar. Landbúnaðurinn er 22%. Þar snýst þetta svo sannarlega um græna orku, betri nýtingu, fóðurbætingu og annað slíkt. Síðan er úrgangur 7%. Þar gengur þetta út á að fara betur með; hugmyndir eru um að framleiða lífdísil og aðgerðaáætlun gerir ráð fyrir bæði sorpbrennslu, þar sem fellur til glatvarmi, og líforkuveri þar sem hægt er að framleiða íslenskt sjálfbært íblöndunarefni. Annar iðnaður er 10%. Hvað er það? Það er græn orka. 5% af sameiginlegu losuninni eru F-gösin og þar er útskipting. 7% eru jarðvarmavirkjanir og þar er niðurdæling. Síðan er LULUCF 9,4 milljónir tonna. Það snýst í rauninni bara um það að við aukum ekki þessa náttúrulegu losun. LULUCF er náttúrleg losun og þar erum við í endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt. Því er villandi að tala um LULUCF þegar talað er um heildarlosun okkar Íslendinga vegna þess að það er losun sem hefur verið frá landnámi.

En hvernig standa markmið stjórnvalda? Skuldbindingar Íslands gagnvart ESB eru 29% en verið er að vinna að útfærslu á uppfærðum markmiðum Íslands sem verða um 40%. ESA hefur tekið út stöðu og framvindu Íslands gagnvart skuldbindingum sínum ár hvert og hefur lagt mat á framfylgd Íslands á fyrstu tveimur árum skuldbindingartímabilsins. Þar kemur fram að Ísland hefur uppfyllt skuldbindingar um samdrátt í samfélagslosun og losun vegna landnotkunar. Framreikningur Umhverfisstofnunar frá 2023, sem byggður er á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2020, sýndi fram á 26% samdrátt í samfélagslosun árið 2030 en útreikningar Umhverfisstofnunar í drögum að uppfærðri aðgerðaáætlun sem birt verður í næsta mánuði sýna fram á 35% samdrátt árið 2030. Aðeins er reiknaður beinn samdráttur vegna 23 aðgerða en viðbúið er að hinar rúmlega 100 aðgerðirnar sem eru í drögunum muni samt sem áður skila samdrætti, þó að ekki sé hægt að meta hann beint, og skili a.m.k. 4% heildarsamdrætti í samfélagslosun árið 2030.

Hvaða aðgerðir eru að skila mestu? Það eru kælimiðlarnir og úrgangs- og orkuskiptin, bæði í iðnaði og vegasamgöngum. Það hefur skilað miklum samdrætti síðustu ár og mikilvægt er að halda þeirri vegferð áfram og tryggja að ekki verði bakslag í þeim árangri sem hefur náðst. Þegar uppfærð aðgerðaáætlun kemur út verður hægt að sjá samdráttarmat allra þeirra aðgerða sem hægt er að meta að svo stöddu. Síðan eru aðgerðir í landnotkun, svo sem endurheimt votlendis og skógrækt.

Varðandi samspilið við náttúruverndina, sem er mjög mikilvæg, og líffræðilega fjölbreytni þá snýst það svo sannarlega um eftirlit með áhrifum loftslagsaðgerða, m.a. á vistkerfið. Áhersla er á náttúrumiðaðar lausnir til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar. Þær fela m.a. í sér að stýra á sjálfbæran hátt og endurheimta náttúruleg og breytt vistkerfi og auka bindingu kolefnis vegna landnotkunar. Lögð er áhersla á vernd og endurheimt birkiskóga og ræktun nýrra skóga o.s.frv. Svo er mjög mikilvægt þegar við erum t.d. að fara í skógrækt að hún gangi til að mynda ekki á búsvæði fugla.

Síðan er uppleggið það að þetta skili sér í orkuskiptin. Öll orka sem við setjum núna inn skilar sér í orkuskiptum því að við erum í öfugum orkuskiptum. Við vorum í því að taka út jarðefnaeldsneyti fyrir verksmiðjur og setja rafmagn í staðinn en því miður, af því að ekki er til næg orka, erum við á öfugri vegferð. Síðan tryggja allar þessar ívilnanir og styrkir í orkuskiptin, t.d. í vegasamgöngurnar, að þetta fari beint í orkuskiptin. En í ofanálag erum við svolítið vön því að öll atvinnustarfsemi sé græn (Forseti hringir.) og þannig viljum við hafa það. Það gefur kannski skakka mynd af því, en t.d. þegar við förum í framleiðslu, landeldi, smáþörungarækt eða hvað það er, þá er það auðvitað aldrei gert með jarðefnaeldsneyti. (Forseti hringir.) Það er gert með grænni orku, eða við vonum það því að það er mjög nauðsynlegt að svo verði um alla framtíð.